„It seems that you’ve been living two lives… One of these lives has a future, and one of them does not.“

Ógleymanleg orð. Ógleymanleg sena, ef út í það er farið. Og án þess að stafa það of mikið út eins og leikskólakrakki þá eru þetta náttúrulega þau merku orð sem Hugo Weaving segir við Keanu Reeves tiltölulega snemma í mynd sem er ennþá í dag sú besta sem þeir hafa báðir leikið í. Að vísu er þetta ekki alveg sú besta sem þau Carrie-Anne Moss og Joe Pantoliano hafa bæði verið saman í, en það er hvort eð er allt annar handleggur. Mikið rosalega er maður samt farinn að meðtaka þessa setningu á allt öðruvísi máta þegar maður sá svo loksins hvernig lífið þróaðist hjá Lönu (áður þekkt sem Larry) Wachowski á þessum árum sem The Matrix hefur verið til. Þessi setning undirstrikar einnig helstu umfjöllunaratriði myndarinnar, þar á meðal frelsi (bæði hugrænt og líkamlegt), örlög en fyrst og fremst val. Það yljar einhvern veginn alltaf hjarta mitt þegar sést svona greinilega að aðstandandi kvikmyndar leggur svona mikið af sjálfum sér í hana, andlega og hugmyndafræðilega, eins og Lana og bróðir hennar Andy hafa alltaf gert.

Byrjum samt aftur á byrjuninni. Til að forðast sömu „staðreyndarvilluna“ aftur og aftur í þessari (því miður löngu) umfjöllun – sem annaðhvort mun vera hægt að kalla sjálfsfróun eða ástarbréf – mun ég héðan í frá vísa í leikstjórateymið sem bræður en ekki systkini. Lana var enn ekki stigin út árið 1999 þegar myndin var gefin út.

Allavega, Wachowski… bræður hafa, síðan þeir byrjuðu, aldrei verið hræddir við að hugsa stórt og skvetta þessum djúpa, bíóelskandi persónuleika sínum út í allar áttir. Sem kvikmyndagerðarmenn er þetta umdeilt dúó þótt metnaður þeirra og ferskleiki sé ávallt ótvíræður. Sumir segja að þeir séu oft heldur tilgerðarlegir, aðrir – eins og ég – kalla þá snillinga. Misgóða en misskilda snillinga sem eru/voru klárlega á undan sinni samtíð.

Það er margt hægt að kalla þetta teymi: atvinnunördar, hugsjónarmenn, undrabörn og að mínu mati verður aldrei hægt að svipta þessum heitum vegna þess að þeir standa ávallt á sínu, og þar að auki er fyrsta Matrix-myndin ógeðslega-vangefið-þroskaheft góð. Hún hefur elst alveg höfðingjalega á tæplega einum og hálfum áratug því innihaldið er ósigrandi, brellurnar góðar og hugmyndirnar sem söguþráðurinn byggir á verða aldrei úreltar. Hún er frumkvöðull í svo mörgu og er tvímælalaust ennþá í dag ein djarfasta og mikilvægasta áhætta sem stórt Hollywood-stúdíó hefur tekið. Mikið traust var lagt til þessara bræðra, sem höfðu eingöngu gert eina agnarsmáa mynd á undan. Ég skora þann á hólm sem segir að þetta traust hafi ekki margborgað sig. Þá er ég ekki að tala eingöngu um fjárhagslega.

Það er aldeilis indælt að geta fengið klikkaðan skáldskap sem er gæddur svona miklum sannleika. Heimspeki þræðist ekki alltaf auðveldlega inn í bíómyndir, en það gerir afraksturinn þeim mun merkilegri þegar bíómynd nær ekki aðeins því markmiði, heldur nær því með algjörum stæl. Ég elska ekki bara Matrix. Ég tilbið hana! Hún er hin fullkomna sci-fi hasarmynd vegna þess að hún byggist öll á hugmyndum og innihaldi… og jú, reyndar trylltum slagsmálum og hasar! Að viðhalda stórskemmtilegu afþreyingargildi og vekja áhorfandann til umhugsunar er draumi líkast fyrir svona mynd. Áður en hún kom út var líklegast Terminator 2 sem komst næst henni, en Wachowski-bræður rústuðu svo einni bestu James Cameron-myndinni í annarri tilraun sinni sem kvikmyndagerðarmenn. Smekksatriði auðvitað, en ég ávinn mér samt þann rétt að kalla þessa bræður alls konar jákvæðum nöfnum bara út af þessari staðreynd eina og sér. Myndin er svo mikil snilld að smæstu gallarnir (eins og hálfstífur Keanu) hafa engin skaðleg áhrif á þá gígantísku heildarmynd sem hún myndar. Bound var tussugóð frumraun, en gæðastökkið sem þeir tóku frá henni yfir í þessa á sér varla fordæmi á meðal leikstjóra.

Látum okkur nú sjá… Cyberpunk-fílingur, vestræn framleiðsla, frönsk speki og austurlensk áhrif í ofbeldinu sem bindast utan um alheimsþemur, spurningar og massíft stórar (heimsenda)hugmyndir, flóknar en úthugsaðar. Þegar svona bræðingur gengur upp er það varla ómerkilegra en að kenna apaketti að synda baksund á hálfu ári, og reiprennandi japönsku í leiðinni. Metnaðurinn er það mikill. Matrix er hvorki besta sci-fi mynd sem ég hef séð, né allra besta hasarmyndin þarna úti, en það er töfrablöndunin sem gerir hana að þeirri mynd sem voða margar hafa reynt að vera. Aðstandendur bíómynda sem reyna fullmikið að herma eftir Matrix hafa aldrei verið gæddir þessari nördalegu smámunasemi sem Wachowski-bræðurnir hafa. Það sem ég met sennilega mest við þessa bræður hvað hugmyndasmíði og áhuga varðar er að þeir eru ekki þessir týpísku, hrokafullu kvikmyndagerðarmenn. Þetta eru einfaldlega bara virkilega klárir bíólúðar. Feimnir, lokaðir, hversdagslegir nördar sem vita hvað þeir vilja og hvað þeir vilja sjá gert úr því sem þeir dýrka ef bestu einingarnar eru soðnar saman.

Matrix hefur gott andrúmsloft, nóg af fjölbreytni, snjalla framvindu sem og einhvern flottasta straightforward-strúktúr fyrr eða síðar í þessum geira, fyrir utan það að vera ein svalasta mynd sem hefur komið frá Bandaríkjunum. Opnunin er sterk og upplýsingarnar streyma stöðugt í uppstillingunni, sem tryggir að „rólegu“ partarnir missa aldrei flugið. Í góðan einn og hálfan tíma er jafnað út vandað exposition (þar sem þetta helsta er stafað út en aldrei of mikið) við alls konar spekúleringar sem aldrei eru þvingaðar eða úr takt við umfjöllunarefnið. Hasarinn heldur sér aftur nokkuð lengi, með nokkrum rassasparkandi undantekningum, en þegar hann sleppir sér er beint sett í fimmta gír á vægast sagt rafmögnuðum lokahálftíma. Semsagt slagsmál, skothríðir, bullet-time, þyrluhasar, sprengingar, enn meiri slagsmál og svo eltingarleikur. Allt þetta og meira á einhverjum þrjátíu mínútum.

Hasarinn er svolítið mjólkaður en tapar aldrei plottinu eða spennunni. Það er heldur ekki oft þar sem slow-mo ofnotkun styrkir ofbeldissenur en bræðurnir nota alltaf skotin til að skapa grípandi myndaramma og ýta undir myndasögufílinginn frekar en að vera stílískir af ástæðulausu. Ég held að flestir sem sáu þessa mynd fyrst hafi átt erfitt með að gleyma fjölmörgum skotum úr henni. Á sínum tíma var það að hluta til vegna þess að tæknin var rosalega byltingarkennd en ennþá í dag eru flottustu senurnar ekkert minna töff en þær voru þegar þær voru fyrir þrettán árum.

Ef himinninn er blár, grasið grænt og Jar Jar Binks talinn viðbjóður þá er alveg ljóst að þessi mynd er útlitslega gallalaus án þess að mótmæli séu leyfð. Það segir sig þess vegna sjálft að kvikmyndatakan er meistaralega meðhöndluð. Litapallettan skiptir alltaf máli, ekkert skot fer til spillis og auðséð er að myndin hefur verið ítarlega storyboard-uð og tekin upp til að líta út eins og myndasaga og/eða japönsk teiknimynd. Tónlistin passar einnig fullkomlega við hverja einustu senu, en toppinum er hins vegar tvisvar sinnum náð: með klassísku skothríðinni í anddyrinu og upphafinu að lokakreditlistanum þegar Rage Against the Machines magnast upp. Svo er auðveldlega hægt að skrifa langar runur um hljóðvinnsluna, klippinguna og tæknibrellurnar í allri sinni dýrð en myndin hlaut verðskulduð Óskarsverðlaun fyrir allan þann pakka þannig að þær staðreyndir undirstrika hrósið betur. Einnig er þess virði að minnast á að goðsögnin Yuen Wo-Ping hafi vel unnið fyrir kaupi sínu, en aldrei býst maður við öðru.

Keanu Reeves hóf ekki feril sinn sem leikari í hefðbundinni merkingu orðins. Tíundi áratugurinn fór heldur ekkert voðalega vel með hann (hver getur gleymt kveljandi frammistöðu hans úr Dracula? Eða Johnny Mnemonic vibbanum?!). Smátt og smátt hefur hann batnað töluvert í dag en sem Neo í fyrstu Matrix-myndinni (með sérstaka áherslu á orðið fyrstu) er hann í fínum málum. Hlutverkið býður ekki upp á margt annað en að vera lágstemmdur, hissa („whoa!“) eða töff og það eru einkenni sem hann kann að púlla þótt enginn snillingur sé. Það er heldur ekki eins og myndin sé einhver öskrandi karakterstúdía. Slíkt er aldrei til umræðu og engin þörf á því heldur. Dýptin í handritinu stýrist sjaldan í áttina að persónunum en í staðinn er unnið sterkt úr hinum einföldustu prófílum. Allir eru eftirminnilegir, hver á sinn hátt. Laurence Fishburne, Carrie-Anne Moss, Joe Pantoliano að ógleymdum Hugo Weaving. Jafnvel hinar einföldustu fígúrur, eins og Véfréttin eða sköllótti krakkinn með skeiðina, eigna sér atriðin sín án nokkurs vafa. Bræðurnir afreka þetta með því að hugsa vandlega um hverja einustu senu og þegar athyglinni er beint að leikurunum – eða fígúrunum sem þeir túlka – fær ljósið þeirra alveg að skína, hvort sem útgeislun ræður ríkjum eða eitursvalur díalógur.

Best að renna yfir þetta aftur: hugmyndaflug, hugmyndafræði, heimspeki, tækni og rússíbanareið. Þetta eru þau orð sem koma fyrst upp þegar á heildina er litið. Ástarblandan (eða nördagrauturinn, með öðrum orðum) er eins og eitthvað frá Tarantino, bara á dýrara, breiðara og gjörsamlega uppfærðu leveli. Áhrifin eru út um allt! T.d. Lewis Carrol, Baudrillard, Philip K. Dick, Jules Verne, Kurosawa, kung-fu, anime, Peckinpah, John Woo, Búdda, Jesú Kristur… nefnið það! Það er rugluð heimska að biðja um skemmtilegra og meira spennandi bland í einum poka ef maður ætlar að taka svona athyglisverð hráefni og krukka þeim saman í dökkri vísindaskáldsögu. The Matrix er allt, og allt sem hún gerir rétt er með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að hún slær hvergi feilnótu nema á stöðum sem núllast út. Það gerir hana að einni allra bestu mynd sem kom út á einu magnaðasta bíóári síðustu aldar, sem og eina af mínum uppáhaldsmyndum. Ever.

 

tian.png.pagespeed.ce.mew6eAuVNQ

 

Besta senan:
Get varla valið eina, en upp á kátar minningar að gera – og stjórnlausu æði fyrir tónlistinni á sínum tíma – mun ég segja skothríðin í lobby-inu.

 

*Uppfært* (ath. Þessi grein var skrifuð áður en Andy var orðinn að Lilly Wachowski)

3 svör við “The Matrix”

  1. Sindri Már Stefánsson Avatar
  2. Arnór Bjarki Hafsteinsson Avatar

Sammála/ósammála?