Það eru víst einhvers konar eðlileg viðbrögð hjá mér þegar ég sest niður til að horfa á íslenska kvikmynd að ég verði þónokkuð skeptískur inn við beinið. Ég auðvitað vonast alltaf eftir góðu og reyni gjarnan að forðast það að dæma eitthvað fyrirfram, en maður nær ómögulega að hrista af sér þessa tilfinningu að eitthvað gæti klikkað eða skilið hroðalegan kjánahroll eftir sig. Reynsla mín hefur a.m.k. kennt mér það og þetta kemur frá einhverjum sem hefur ekki séð fáar íslenskar myndir.

Ég ætla m.a.s. að vera kaldur og segja að ég hef ekki ennþá séð innlenda mynd sem ég get kallað meistaraverk eða skylduáhorf. Annars hjálpaði það ekki mikið væntingar mínar gagnvart Óróa að Júlíus nokkur Kemp kom að framleiðslu hennar, og við skulum bara orða það þannig að sá maður hefur ekki beinlínis framleitt eitthvað gull hér áður fyrr. Ekki svo láta mig byrja á leikstjóraferlinum hans, allt önnur umræða. Hvað niðurstöðuna hérna varðar fer mest allt hrós mitt til leikstjórans Baldvin Z. Þetta er fyrsta myndin hans í fullri lengd og með henni einni tókst honum að gera tvennt sem ég get lofað honum fyrir; bæði það að hafa mótað trúverðuga og vel heppnaða mynd um íslensk ungmenni og líka það að hafa gert innlenda mynd sem greip mig sterkt í dramatíkinni sinni, og það er eitthvað sem ég kalla sjaldséð.

Órói er myndin sem Gemsar (hin íslenska unglingamyndin) reyndi að vera. Það er svo hressandi að sjá loks klakaframleidda mynd sem almennilega nær að tala sama tungumál og unglingar gera, og þá án þess að virka tilgerðarleg eða kjánaleg á meðan. Það eru í mesta lagi tvær til þrjár senur sem virðast vera einum of æfðar eða ónáttúrulegar, en fleiri eru þær ekki. Annars er blákalda raunsæið það sem ræður öllu og vefst það hér utan um sögu sem er ekki aðeins (óvenju) kröftug á tímapunkti heldur líka fyndin og með sálina á sínum stað allan tímann – það er eitt af mörgu sem Gemsar hefði átt að gera en náði því aldrei af sökum þess að framleiðsla hennar var latari en allur andskotinn.

Það skiptir líka akkúrat öllu máli að mynd eins og þessi sé vel leikin, og ég get sagt að hún sé það án þess að þurfa að hugsa mig tvisvar um. Það er eiginlega ónauðsynlegt að pikka út hvern og einn því í rauninni stóðu allir sig frábærlega, bara misjafnt hversu kröfuhörð hlutverk þeirra voru. Í þeirri deild eru það hiklaust þau Atli Óskar Fjalarsson og Hreindís Ylva Garðarsdóttir sem skildu mest eftir sig. Atli fær það þunga verkefni að vera í burðarhlutverkinu á meðan Hreindís glímir við langerfiðasta karakterinn. Vel gert, krakkar!

Annars rennur myndin á traustum hraða án þess að detta út í stefnuleysi og inn á milli vekur hún mann duglega með hádramatískum atriðum sem skila sér með rétta högginu. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er auðvitað ákveðin röð af senum í seinni hlutanum þar sem allt fer gjörsamlega til fjandans, og niðurstaðan sleppur við það að vera vandræðaleg og verður í staðinn bara helvíti átakanleg. Tónlistin, sem nýtist reyndar hrikalega vel út alla myndina, hjálpar líka rosalega til að ýta undir áhrifin – og auðvitað tilþrif leikara. Það er síðan undarlega fínn skammtur af húmor til staðar og sem betur fer er þetta húmor sem nær til manns í raunsæinu í stað þess að vera einhvers konar runa af kjánaskap og þvinguðum bröndurum sem skipa þér að hlæja (ég hugsa enn til þín, JÓHANNES!).

Fókusinn helst líka skarpur á persónur myndarinnar nánast allan tímann, a.m.k. í þeim litlu sub-plottum sem þær fá. Að mínu mati hefði verið þægilegra að lengja myndina aðeins út og leyfa aukapersónum (t.d. þeim sem voru leiknar af Birnu Rún, Elíasi Helga og Maríu Birtu) að gera meira, en Baldvin dettur þó ekki í þá gryfju að gera persónurnar þannig að áhorfandinn ruglar þeim auðveldlega saman. Þær eru furðu einfaldar en flestar mjög fjölbreyttar og allar hæfilega gallaðar eða með eðlileg vandamál sem annaðhvort þú eða einhver sem þú þekkir munt kannast við.

Órói hefur einmitt möguleikann á því að hitta sterkt til þín því það er alls ekki erfitt að setja sig í spor einhvers sem hún fjallar um, og hvort sem þig líkar betur eða verr við það, þá er pottþétt einhver karakter í henni sem þú tengir þig við, hvort sem sá karakter endurspeglar sjálfan þig, vin þinn eða ættingja (svona er það að búa á litlu landi!). Eina hráefnið sem í rauninni vantar til að gera þessa mynd að geysilega áhugaverðri stúdíu á unglingalífið á menntóárunum er áhersla á vímuefni. Allt annað virðist vera til staðar; Drykkja, gredda, fordómar, kvíði, einmanaleiki, viðkvæm leyndarmál, afskiptasemi foreldra, afbrýðissemi ásamt mörgu öðru sem gerir þessa hormónasúpu eðlilega. Annars nær þessi mynd markmiðum sínum mun betur en ég þorði að ímynda mér fyrirfram. Hvað íslenskar myndir varða er hún með þeim betri sem ég hef séð í langan, langan tíma. Hún er bara eitthvað svo einlæg, sönn, kómísk en samt svo bítandi.

Það er vont að kalla þetta unglingamynd því meira er hún bara drama (með léttu feel-good ívafi) sem vill svo til að fjalli um unglinga. Í flestum tilfellum bendir orðið unglingamynd til þess að markhópurinn njóti sín á meðan áhorfinu stendur. Ef eitthvað, þá er þessi mynd meira fyrir okkur leiðinlega fullorðna fólkið (ég er samt á mörkunum, enda bara 23 ára) þar sem hún er dýpri, alvarlegri og tilfinningalega flóknari en hún lítur út fyrir að vera. Þetta er unglingamynd sem fattar unglinga sem allir ættu að gefa séns, sama hversu gamall viðkomandi er.

atta

Og já… Til gaursins sem lék Geira: Djöfull varstu fyndinn!! Langt síðan ég sá seinast svona sannfærandi „leiðinlegan“ gaur.

 

Besta senan:
Sterkasta íslenska „NEEEEEEEII“ upphrópunar-móment sem ég hef séð. Grimmt atriði.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 17.10.2010)

Sammála/ósammála?